25. Desember
Gleðileg jól allir sem hér kíkja við.
Það er lítið að frétta frá Krútt Hestum. Þó er búið að sækja Mána í graðhestahólfið, en hann
gerði okkur þann grikk að drepast nokkrum dögum eftir heimkomuna.
Þó svo verið sé að fækka hrossunum þá var ekki meiningin að fækka þeim svona.
Helga Una var með Rektor og gekk bara vel með hann. Ég er búinn að sækja hann og hún tekur
hann aftur seinna í vetur.
Búið er að taka inn og járna, enn fremur er búið að taka inn fjögur folöld.
Reiðmennskan er að byrja af fullum krafti og á bara eftir að aukast á nýju ári.


18. Október
Það virðist hafa þornað í pennanum hjá Krútthestum, en í rokinu er best að setjast við skriftir og greina frá einhverju markverðu frá síðasta pistli.
Það var sónar-skoðað frá Tý frá Skeiðháholti og voru allar merar fylfullar nema ein. Villimey sónaðist fylfull eftir Glóðafeykir og verður spennandi að sjá hvaða litur verður á folaldinu þar sem Villimey á ekki að geta gefið einlitt.
Stóðréttirnar voru í september og reið fjöldi manns frá Njálsstöðum í blíðskapar veðri inn að Kirkjuskarði og reið svo með rekstrinum til rétta. Um kvöldið voru um 30 manns í grilli og skemmtu sér fram eftir nóttu. Daginn eftir var svo farið í réttir, því miður var ekki eins gott verður og fyrri daginn heldur kalsa rignin og gjóla.
Dregið hefur verið undan nokkrum reiðhestum en þó eru nokkrir á járnum og eitthvað verður tamið ef veður og tími leifir. Lítið er eftir af folöldunum, þau eru flest seld.
Læt þetta duga núna.


26. Ágúst Um verslunarmannahelgina var mikið riðið út. Ég sendi Frökk aftur til Helgu Unu og gengur mjög vel með hana. Ég fór á bak á Skottdísi í fyrsta skiptið um verslumarmannahelgina og og hún kom mér á óvart, virtist meiri vilji en ég bjóst við en alveg róleg. Þar sem það gekk svona vel ákvað ég að prufa Öldu, það gekk líka mjög vel hún var alveg róleg og góðar hreyfingar.
Annað sem hefur verið framkvæmt frá síðasta pistli er að það er búið að heyja.
Týr var tekinn úr merunum þann 28.07 og var sónað undan honum í kringum 10. ágúst.
Ég þurfti að sækja Villimey í girðingu í Skagafjörð hún var hjá Glóðafeyki og vildi bara hafa hann ein. Hún er með fyli
Svolítið hefur verið um fyrirspurnir um hross og folöld en ekkert selt.
Læt þetta duga í bili.


12. Júlí
Það hefur verið lítill tími til að setjast niður við skriftir frá síðasta pistli.
Þó hefur margt verið brallað. Njálsstaðabændur ráku hross á fjall með misjöfnum árangri, eitt kom strax á eftir okkur og elti heim, hin komu fjórum dögum seinna.
Það hefur mikið verið riðið út enda búið að vera veðrið til þess. Ég hef verið að leita að ref og hef tekið trippin mikið með mér og teymt þau utan á.
Það er búið að laga hrossa-réttina að hluta, setja niður járn, staura og rör á milli.
Í síðasta pistli sagði ég frá folöldunum sem fæddust í sumar og undan hvaða hestum þau væru. Þau sem eru til sölu verða auglýst á Hestafréttir.is
Ég hef verið að ríða Frökk, Furu og Kviku og eru þær allar mjög góðar, Alexandra er farin að ríða Nótu og gengur mjög vel


17. Júní Jæja þá er aftur sest við skriftir. Í síðasta pistli sagðist ég ætla að gera folöldum, fæddum nú í sumar, skil svo ég hefði eitthvað að segja.
Fyrsta folaldið fæddist 03.05 sem þýðir að Fröken gekk ekki með nema 46 vikur, þetta var jörp meri undan Fjakra IS2005156887 frá Njálsstöðum. Fjarki var byggingadæmdur nú í vor og fékk 8.22. Það komu þrjú folöld undan Kjóa IS2006187001 frá Kjarri, allt voru það hestar. Bleikálóttur undan Mánadís, sótrauður undan Brák og fífilbleikstjörnóttur undan Eyju.
Undan Rektor IS2001156887 frá Njálsstöðum komu fjögur folöld í öllum litum. Brúnskjóttur hestur undan Nótt, rauðskjóttur hestur undan Nöf, jarplitföróttskjótt meri undan Von og jarpvindskjótt meri undan Vindu. Enn fremur fékk Signý tvær merar undan Rektor, báðar rauðskjóttar undan Fermingu og Skuttlu.
Klukka hennar Alexöndru kom með bleikálóttskjóttan hest undan Rektor. Myndir af folaldinu hennar Alexöndru má sjá á Odd-Horses.is.
Takið eftir, sem betur fer fæddist ekkert brúnt folald í sumar.
Sennilega er ritstjórinn komin með ritræpu því það verður styttra í næsta pistil.
Kveðja Krútt-Hestar.


10. Júní
Því miður hefur verið ritstífla hjá fréttaritara Krútt-Hesta. Vonandi stendur þetta nú til bóta, það getur varla versnað. Síðustu fréttir voru skrifaðar þann 14.01.2009, mér finnst rétt að taka fram árið þar sem það er svo langt frá síðustu fréttafærslu.
Margt hefur gerst í hestamennskunni á Njálsstöðum, heimili Krútt-Hesta. Alexandra Dögg, afabarn, er búin að vera á reiðnámsskeiði í allan vetur með hana Rák og tók Alexandra próf í "Knapamerki 1".
Helga Una er búin að vera með Furu Hrappsdóttur og gekk vel með hana. Ég gerði Kviku Parkersdóttur reiðfæra, þar er mjög skemmtilegt hross á ferðinni, mikill vilji og tölt. Nóta Hrymsdóttir er orðin vel reiðfær, vilji fer vaxandi og töltið er gott. Tía Flipadóttir er með frábært ganglag en vantar vilja. Önnur hross eru komin styttra á leið þó er Ótta Kjarvalsdóttir orðin þokkalega reiðfær fyrir mig.
Hér á Njálsstöðum eru komin fimmtán folöld í hinum ýmsu skemmtilegu litum. Tíu þessara folalda eru í eigu Krútt-Hesta og eru myndir af þeim að finna í myndaalbúminu. Frekari skil verða gerð á folöldunum síðar svo ég hafi eitthvað að segja í vikulegum pistli héðan í frá, eða því sem næst hehehe. Hin folöldin eru í eigu Miðju / Odd-Horses.is


14. Janúar
Nú er kominn tími til að setja inn einhverjar fréttir hér á síðuna okkar.
Þann 1. janúar komu Dódó og Össi hingað norður til okkar sem og Knútur og Cerice komu og voru hjá okkur í nokkra daga. Knútur og Cerice eiga hjá okkur nokkur hross sem þau komu og litu á og einnig sýndu þau okkur frjálsu tamningaraðferðina sem þau notast við.
Ég er búin að prufa þetta síðan þau voru hér en sé að ég þarf meiri tilsögn en þetta virkar.
Helga Una kom með Frökk Rökkvadóttur heim í mánaðar hvíld, en stefnt er með hana í sýningu í vor.
Hún skoðaði um leið þrjár aðrar merar sem hún gat valið um að fá í staðinn og voru það þær Villimey, Nist og Fura. Helga Una valdi Furu sem er undan sömu meri og Frökk og Hrapp frá Sauðárkróki.
Búið er að járna nokkur af tryppunum og farið að ríða út.
Stefnt er á að taka folöldin inn um næstu helgi og aldrei að vita nema að nokkrar myndir af því fylgi næstu skrifum.


1. Janúar
Nú árið er á enda svo við óskum öllum
Gleðilegs nýs árs
og þökkum fyrir það liðna


Til baka