16. Júní
Hæ hér kemur meira efni.
Það eru öll folöld fædd. Fjögur undan Dagfara þessum mikla litahesti og fékk ég rauðskjótt, brúnt, jarpt og rautt allt voru þetta hestar. Það komu bara 3 einlit folöld undan honum og þau eru öll hjá okkur. Ég veit ekki hvað ég hef gert af mér til að eiga þetta skilið. Eyfeld stóð sig betur, það komu þrjár merar hjá honum og einn hestur.
Það voru rekin heim níu tryppi og þeim var gefið ormalyf og hófar voru klipptir. Þau voru rekin á fjall í dag.
Alda hennar Diddu er alltaf að bæta sig sem reiðhestur. Verður frábært hross og það besta við hana að hún er alveg örugg, hentar öllum. Mjög gott fyrir okkur þar sem Fura og Rák eru báðar haltar og verða ekki notaðar meira til reiðar.
Ég ætla að halda Rák og Kommu. Rák fór undir Vals frá Auðsholtshjáleigu og Komma fór undir Hvítserk frá Sauðárkróki. Ég á tvö mertryppi undan Hvítserk og eru þau mjög flott og góð í umgengni.
Það á að fara í túr um Landsmóts helgina. Engin sveita rómantík við Landsmót í Rvk.
Ekki meira í bili. Bæ

15. Maí
Það er spurning hvað þýðir að vera með heimasíðu ef maður nennir ekki að sinna henni. Síðast skrifað í sept 2011. Eins og gefur að skilja hefur margt gerst síðan í september.
Skal nú stiklað á stóru og greint frá því helsta. Það reið fjöldi manns frá Njálsstöðum á Laxárdalinn, í rjóma blíðu en auðvitað gleymdist myndavélin svo engar verða myndirnar. Um kvöldið var boðið upp á kjötsúpu og Dódó og Siggi spiluðu á gítar fram eftir kvöldi.
Um áramótin tókum við inn hross því að Alex fór á reiðnámskeið. Til að byrja með var ekki mikið riðið út, þegar maður kemur heim í myrkri og vont veður nennir maður ekki að ríða út en heldur hafa útreiðar aukist með hækkandi sól og betra veðri.
Stjörnudís kom heim aftur hún reyndist vera með úlftennur og voru þær teknar og er ég byrjaður að ríða henni aftur, gengur bara þokkalega. Alda og Eylín eru orðnar vel reiðfærar og verða mjög góð reiðhross. Þegar ég hætti í Stíganda tók ég inn sex hross í viðbót svo nú eru inni 20 hross en bara 18 úti.
Í apríl kom Þórður til okkar og ætlar að vera í ár hann er mjög duglegur á hestbaki og gengur bara vel að ríða út.
Þegar ég ætlaði að setja inn núna um daginn kom ekki ein merin svo ég fór að sækja hana, reyndist hún þá fótbrotin, ég varð að fella hana. Rákin mín virðist ekki ætla að verða góð í framfætinum eftir að hún datt á eggjagrjótið, verður hölt ef hún er mikið inni.
Dagfari frá Sauðárkróki verður aftur í girðingu hér í sumar. Það er mikið pantað undir hann. Það á að koma með merarnar 20. júni og hann verður settur til þeirra 2 dögum seinna. Við fáum 4 folöld undan honum í sumar.

Til baka